
VORJAFNDÆGUR með konum í náttúrunni fim 20. mars kl. 18.00.
Innilega velkomnar í eldathöfn úti í náttúrunni með Láru og Maríu!
Hér verður rýmið til þess að nærast í náttúrunni, anda dýpra, tengjast árstíðinni og spegla sig í vorjafndægrum, þegar jafnvægi ríkir milli ljóss og myrkurs, og vorið færist nær.
Í skjóli trjánna kveikjum við eld, njótum dýrindis kakóbolla, hugleiðum og hlustum á náttúruna, opnum raddirnar í söng í nærandi samveru - Konur í hring í athöfn með eldinum.
Hvar: Við borgarmörkin, úti í náttúrunni. Staðsetning er send út við skráningu.
Hvenær: Fimmtudagur 20.mars 18-20.
Annað: Við mætum vel klæddar eftir veðri, höfum bolla undir kakó og vatnsflösku með, tromma / hrista velkomin með. Gott að hafa eitthvað að sitja á/ púði / teppi.
Láru & Maríu dreymir um að skapa heiðarlegt rými þar sem konur geta verið þær sjálfar, þar sem þær geta tímabundið lagt frá sér hlutverkin sín, ferðast nær sér & eflt kynni við sig & aðrar konur. Þar sem þær mega vera glaðar, þreyttar, spenntar, sorgmæddar, hræddar, berskjaldaðar, bjartsýnar. Þar sem við göngumst við líðan okkar, stöðu & tilfinningum & æfingum okkur í að sýna sjálfum okkur og öðrum kærleika, hlustun & virðingu.
Náttúran sem við sækjum heim er aðal meðalið, í henni býr allt. Elementin & athafnir þeim tengdum geta innihaldið og fært okkur djúpa heilun svo fremur sem við færum virðingu, þakklæti, hlustun, virði & ásetning inn í það. Svörin sýna sig oft í eldinum, berginu, ánni eða trjástofninum.
Lára er jógakennari, tónlistarkona & kynjafræðingur með menntun í sjamanisma & höfuðbeina- & spjaldhryggsjöfnun. María er dansari, sjúkraþjálfari, jóga nidra kennari & doula. Hún sérhæfir sig í kvenheilsu, er með menntun í höfuðbeina- & spjaldhryggsjöfnun og elskar að halda rými fyrir fólk að dýpka tengslin við sig sjálft, náttúruna & lífið sjálft.
KONUR í náttúrunni er lifandi viðburðaröð sem slær í takt við árstíðir & náttúru landsins: Serimóníur, ævintýri úti í móa, í nánd við jörðina & fossana, svitahof & sjóböð, í nærandi samveru með konum, ræktandi innri tengingu, frelsi & sambandið við jörðina. Hugmyndin kviknaði árið 2022 hjá Maríu Carrasco & Láru Rúnarsdóttur og hafa þær haldið úti ýmsum formum af viðburðum, ævintýrum & námskeiðum með konum í náttúrunni.
Af hverju serimóníur:
Í helgum athöfnum & serimóníum gefst okkur færi á að tengjast okkur sjálfum, fólkinu, jörðinni & tilvistinni á dýpra sviði. Hver serimónía hefur sinn tilgang og við gefum bænir & þakklæti. Þá iðkum við gjarnan hugleiðslu, hreyfingu/dans, söng & spilum á hljóðfæri. Með hugleiðslu ferðumst við inn á við þar sem við vinnum með að opna hjartað, tengjast sálinni, finna fyrir líkamanum & heyra í innsæinu. Við fáum rými til að muna það sem skiptir máli, finna tilganginn, endurtengjast og nærast á líkama & sál.
Um kakó & íslenskar lækningajurtir:
Hver planta & jurt hefur sinn mátt og eiginleika og tengist náttúrunni & landinu sem hún tilheyrir. Við trúum því að með því að tengjast plöntunni og opna fyrir líkamlegu áhrifin þá styðji það okkur í því að finna fyrir hjartanu, andanum & tilfinningum og geti styrkt líkamsstarfsemina á mjög fjölbreyttan hátt og hjálpað okkur að tengjast náttúrunni & jörðinni. Kakóplantan og þær íslensku lækningajurtir sem við munum bjóða upp á (hvönn, birki, maríustakkur) verða kynntar & heiðraðar í hvert skipti.