Námskeiðið FRIÐSÆLT JÓGA er sérstaklega ætlað unglingum á aldrinum 13-16 ára, sem eru að takast á við streitu eða kvíða og/eða þurfa stað og stund til að kúpla sig út og slaka á í öruggu og friðsælu rými. Markmiðið er að læra inn á eigið taugakerfi í gegnum öndun, mjúkar hreyfingar og leidda slökun.
Á námskeiðinu læra unglingarnir pranayama öndun, mjúkar yin jóga hreyfingar og slökun í gegnum savasana og jóga nidra sem er sérstaklega aðlagað að þessum hópi.
Mjúkt jóga eða svokallað yin yoga er róleg jógaiðkun sem hentar sérstaklega þeim sem vilja róa taugakerfið sitt eða geta ekki stundað ákafa hreyfingu. Allar hreyfingar eru mjúkar og stöðurnar miða við að vinna með bandvefinn en ekki stóru vöðvahópana.
Jóga nidra er leidd djúpslökun eða svokallaður jógískur svefn þar sem ákveðið handrit af líkamsslökun og -öndun er lesið upphátt og hjálpar líkama og huga að slaka á.
Rannsóknir hafa sýnt að yin jóga og jóga nidra getur hægt á hjartslætti og minnkað blóðþrýsting og að regluleg iðkun geti dregið úr kvíða og þunglyndi.
Hver tími er 1,5 klst í sex skipti og byrjar 6.september. Tíminn byrjar á kynningu á þema dagsins þar sem við flæðum inn í öndunaræfingu og vekjum upp líkamann. Þaðan förum við yfir í mjúkt yin jóga og endum á stuttri slökun með aðstoð jóga nidra. Í lokin endurspeglum við hver upplifunin var í tímanum og förum yfir heimaverkefni.
Kennari námskeiðsins er Kristjana Jokumsen, kennari Móa studio og eigandi meðferðarstofunnar Hugur í hjarta. Kristjana er með B.A. í uppeldis- og menntunarfræði og M.A. í fötlunarfræði frá HÍ. Hún hefur einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun frá HR. Hún er Reiki Meistari, höfuðbeina- og spjaldhryggjameðferðaraðili, með menntun í NA Shamanisma og er Yin yoga og Yoga Nidra kennari.
Kristjana hefur áratuga reynslu af öllum stigum skóla-, frístunda- og félagsmiðstöðvastarfs og hefur unnið með börnum og unglingum í hinum ýmsu verkefnum. Hugmyndin að þessu námskeiði kviknaði fyrir nokkrum árum þegar hún var að leita að námskeiði fyrir krakka með hátt streitustig eða veikt taugakerfi. Hún kom að tómum kofanum og úr varð þetta námskeið sem er sérstaklega ætlað unglingum sem vantar rólega hreyfingu og slökun í líf sitt.
Verð: 22.900.-
Unnt er að skipta greiðslum í tvennt sé þess óskað - hafið þá samband í gegnum moar@moarstudio.is